Um bláfánann

Bláfáninn er alþjóðleg viðurkenning fyrir smábátahafnir og baðstrendur sem er veitt af alþjóðlegum samtökum um umhverfismennt, Foundation for Environmetal Education (FEE). Bláfánaverkefnið hófst árið 1985 í Frakklandi og hefur það breiðst út um allan heim á síðustu árum. Verkefnið hvetur yfirvöld til að stuðla að hreinu umhverfi, bættri umgengni og aukinni fræðslu og kynningu á haf- og strandsvæðum.

Til að hljóta Bláfánann þarf Kópavogsbær að standast kröfur um góða þjónustu og  öryggisbúnað við höfnina ásamt því að veita upplýsingar og fræðslu sem stuðla að bættri umgengni við hafið og verndun umhverfisins. Með þetta að leiðarljósi má vernda umhverfi hafnarinnar og alla þá þjónustu sem höfnin býður upp á íbúum og gestum til hagsbóta.

Til að hljóta Bláfánann þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Vinna markvisst að því að bæta umhverfi hafnarinnar.
 • Veita upplýsingar um viðkvæm svæði í og við höfnina.
 • Bjóða upp á fræðslu um umhverfið.
 • Sjá til þess að höfnin sé snyrtileg og ekki sjáanleg merki um mengun.
 • Bjóða upp á þrifaleg salerni og þvottaaðstöðu.
 • Höfnin sé vel upplýst og bátum sé veittur aðgangur að rafmagni.
 • Slökkvitæki, björgunar- og skyndihjálparbúnaður sé tiltækur við höfnina.
 • Hafa ílát til að flokka úrgang, s.s. endurvinnanlegt sorp, olíu og önnur spilliefni.

Bláfáninn er veittur í eitt tímabil í senn, svo fremi sem allar kröfur eru uppfylltar. Sérfræðingar á sviði umhverfis-, öryggis- og heilbrigðismála eru í dómnefnd Bláfánans og hafa eftirlit með svæðinu á Bláfánatímabilinu. Bláfánaverkefnið er unnið í samstarfi með Landvernd og þangað skulu berast athugasemdir ef einhverjar eru. Enn fremur má senda þær til alþjóðaskrifstofu Bláfánans.

Þú getur hjálpað til við að vernda höfnina og umhverfi hennar með því að:

 • Framfylgja umgengnisreglum Bláfánans.
 • Fara sparlega með rafmagn, vatn og eldsneyti.
 • Hvetja sjófarendur til að vernda umhverfið og ganga vel um.
 • Nota vistvænar vörur.
 • Tilkynna um mengun í sjónum og brot á reglum til eftirlitsaðila og Landverndar.

Öryggi við höfnina

 • Leggðu staðsetningu slökkvi- og björgunarbúnaðar vel á minnið.
 • Hugaðu að eldhættu og ekki tendra eld nálægt eldsneyti.
 • Dragið úr siglingahraða innan hafnarinnar.
 • Klæðið börn ávalt í björgunarvesti.
 • Stýrið aldrei bát undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

Umgengnisreglur Bláfánans til að vernda umhverfið

 • Sýna aðgát í umgengni við dýr og plöntur.
 • Forðast umferð um friðlýst svæði á sjó.
 • Fara með aðgát á friðuðum svæðum í nágrenni hafnarinnar.
 • Losa spilliefni og olíuúrgang í þar til gerð ílát.
 • Nota ruslagáma og flokka endurvinnanlegt sorp.
 • Aldrei losa úrgang og safntanka fyrir skólp í höfnina.

Bláfánaveifur fyrir smábátaeigendur

Smábátaeigendur geta flaggað Bláfánaveifu með því að undirrita viljayfirlýsingu um vistvæna umgengni á hafi úti og í höfnum. Hægt er að sækja um veifuna og undirrita viljayfirlýsingu hjá hafnarverði og umhverfisfulltrúa á skrifstofu Kópavogsbæjar. Allir þeir sem undirrita yfirlýsinguna fá nafn sitt birt hjá alþjóðlegu skrifstofunni.

Umhverfisfræðsluverkefni

 

Eitt af markmiðum Bláfánaverkefnisins er vekja fólk til umhugsunar um náttúruna og hafið, að sýna aðgæslu í umgengni. Yfir Bláfánatímabilið skipuleggur bærinn fræðsludagskrá í samvinnu við siglingafélagið Ými.

AddThis Social Bookmark Button

Viðbótar upplýsingar