Helstu spurningar og svör

Hvernig gerist ég félagi í Ými?

Til þess að gerast félagi þarf aðeins að greiða ársgjaldið, sem er 5000 kr fyrir 2019.

Félagsgjaldið er greitt beint inn á heimabanka Ýmis

536-26-6634,

kt 470576-0695

og setja: "Félagsgjald 2019" í athugasemdir við greiðslu.

Síðan er góð hugmynd að senda okkur línu á siglingafelag@siglingafélag.is til þess að kynna ykkur sem nýjan félagsmann.

Er hægt að leigja báta hjá ykkur?

Siglingaklúbburinn leigir ekki út báta. Félagsmenn fá báta og björgunarvesti lánaða endurgjaldslaust, svo lengi sem bátakostur leyfir. Bátana má nota á siglingasvæði klúbbsins, þ.e. á Fossvoginum, inn í Kópavog og út á Skerjafjörð. Þegar bátur er fenginn á leigu þarf að segja umsjónarmanni til um hvar ráðgert er að sigla og hvenær bátur eigi að vera kominn til baka.

Af hverju er ekki hægt að leigja báta?

Leigustarfsemi þarf rekstrarleyfi og rekstrartryggingar þar að lútandi. Seglbátar eru einnig mjög dýr búnaður (oft yfir miljón hver) og geta skemmst ef farið er illa með þá. Við höfum því kosið að stýra aðgangi að bátum til félagsmanna sem við höfum þjálfað, eða fylgst með á siglingu.

Hvaða báta er hægt að fá lánaða?

Félagið á Klúbburinn á nokkra sit-on-top kajaka, tvo sjókajaka og nokkra aðra sit-in báta, sem félagsmenn geta fengið að láni. Klúbburinn á líka kænur (litla seglbáta), svo sem Optimist, Topper og Laser, sem félagsmenn fá einnig aðgang að. Við eigum líka nokkrar stærri kænur/litla kjölbáta sem eru aðgengilegir fyrir félagsmenn, en kjölbátur félagsins (SIF) er ekki til láns.

Er hægt að fá lánaðan fatnað?

Nei. Klúbburinn sér bara um að útvega björgunarvesti. Ef siglingaföt (blautgallar/þurrgallar eða annað) eru skilin eftir í klúbbnum má hver sem er fá þau að láni. Blautum fötum sem skilin eru eftir í búningsklefum er fargað.

Hvað geri ég ef ég kann ekki að sigla?

Fyrst ber að skýra að siglingar eru margir hlutir. Ýmir er fyrst og fremst með siglingar á kænum, sem eru litlir seglbátar (fyrir 1-2). Við eigum líka eina skútu, sem við notum í keppnir og kennslu á skútunámskeiðum. Við höfum ekki skipulagða starfsemi um kajak siglingar, en við viljum gjarnan fá fólk inn í klúbbinn sem eru til í að sinna þessu.

Til þess að sigla á kænum þarf ekki próf, bara löngun og kjark (og góðan fatnað).

Það er einfalt að læra grunn handtökin á kænum og sigla á góðviðrisdögum. Þessa báta er líka oft hægt að fá lánaða erlendis, en þá þurfa menn að geta sýnt fram á að þeir kunna að setja bátinn upp.

Við tökum gjarnan á móti óreyndum siglurum á opnu kvöldunum, sem eru á fimmtudögum í sumar (frá byrjun júní og þar til veður hamlar siglingum).  Fyrstu skiptin er farið með reyndum einstaklingi út til þess að kynnast hvernig hann lætur af stjórn. Við reynum síðan að para fólk við reynda siglara þar til handtökin verða hæg.

Hvað þarf ég til að sigla?

  1. Björgunarvesti
  2. Bát

Við mælum að sjálfsögðu með að fólk sé í fatnaði sem má blotna og verður ekki of kaldur ef hann blotnar. Það er yfirleitt kaldara úti á sjó en í landi sökum vinds og þeim mun lægri sem báturinn er, þeim mun blautari verður sá sem siglir.

Eruð þið með siglingaæfingar?

Ýmir verður með siglingaræfingar fyrir aldurshópinn 8-15 ára í sumar. Æfingarnar verða á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá 16:15-19:00. Fyrsta æfingin verður þriðjudaginn eftir Hvítasunnu, 11. júní og sú síðasta 15. ágúst. Á þessum æfingum gerum við ráð fyrir krökkum, með litla sem enga reynslu, upp í þá sem hafa áhuga á að fara í keppnir. Áherslan á þessum æfingum verður því meira á leik og færni og minna á keppnistækni. Skráning á æfingarnar fer fram á frístundagátt Kópavogsbæjar.

Við höfum ekki sett á fót sérstakan keppnisflokk í sumar, þar sem eftirspurning hefur verið lítil. Þeir sem keppa fyrir hönd klúbbsins á kænum taka þátt í æfingum á vegum Brokeyjar (sunnanmegin á voginum).

Hvenær er hægt að fá báta lánaða?

Við biðjum óreynda um að venja komur sínar fyrst á opin kvöld, sem verða á fimmtudögum í sumar. Á þeim dögum reynum við að kalla til fleiri reynda siglara, sem geta kennt handtökin. Þetta tryggir öryggi siglingafólks

Félagsmenn sem kunna að sigla geta fengið báta lánaða á meðan siglingaæfingar fara fram (eftir kl 17), svo fremi að báturinn er ekki í notkun af æfingahópnum. Klúbburinn er með æfingar í sumar (frá 10. júni á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum frá klukkan 16:15-19:00). Lán á bátum þarf að skrá í dagbók félagsins.

Félagsmenn með mikla reynslu geta fengið bát að láni á meðan siglingastarf Kópavogs (Kópanes) er með starfsemi (frá 10. júni á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum fyrir og eftir hádegi). Starfsmenn Kópaness geta ekki séð um eftirlit á öðrum en eru á þeirra vegum og öryggi því alfarið á eigin vegum. Til þess að fá bát að láni þarf að senda beiðni á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og tilgreina bát og tímabil. Við munum síðan láta Kópanes vita, og skrá lánið í dagbók félagsins. Eingöngu er hægt að fá báta að láni sem eru ekki í notkun af Kópanesi.

Get ég sett bát á flot hjá ykkur?

Rampurinn niður í sjó er í eigu Kópavogs. Við setjum því engar hömlur á hver fer þar út með bát. Flotbryggjan er líka í eigu Kópavogsbæjar og hafnarstjóri sér um að úthluta plássi og lyklum að bryggjunni. Aðgangur að húsnæði er í höndum Ýmis, og er því læst nema ef æfingar eða annað starf er í gangi.

Er hægt að geyma bát hjá ykkur?

Við getum ekki tekið að okkur að geyma báta sem eru ekki í eigu félagsins, eða á annan hátt bundnir notkunarsamningi við félagið.

Hér koma til nokkrir þættir: Plássið í bátahúsinu er mjög takmarkað, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Á vormánuðum fer fram viðhaldsvinna, þannig að ryk, málning og annað getur lent á hlutum sem eru þar inni. Yfir sumarmánuðina er mikill umgangur um svæðið, þar sem börn og fullorðnir ganga um. Við getum því ekki ábyrgst að bátar skemmist ekki, eða hlutir úr þeim týnist.

Er hægt leigja skútur hjá ykkur?

Ýmir leigir ekki út skútu félagsins (SIF). Sifin er notuð í kennslustarfi (sjá skútunámskeið), auk þess að í sumar verður settur upp keppnishópur sem mun sigla bátnum í þriðjudagskeppnum á Kollafirði og á öðrum kjölbátamótum.

Getið þið kennt mér að sigla skútu?

Já. Siglingafélagið Ýmir býður upp á skútunámskeið fyrir fullorðna. Nemandinn er undirbúinn fyrir próf í verklegum hluta skemmtibátaprófsins, sjá námskrá fyrir hásetanámskeið. Boðið verður upp á eftirfarandi dagsetningar.

  • Námskeið 1: 3/6 - 14/6
  • Námskeið 2: 8/7 - 19/7
  • Námskeið 3: 29/7 - 9/8

Hvert námskeið telur 5 skipti: 4 tíma í senn á mánudögum, miðvikudögum og laugardögum. Verð: 45.000 kr. Nánari upplýsingar gefur Sigríður

Keppið þið í siglingum?

Siglingafólk á vegum Ýmis keppir bæði á kjölbátum og á kænum.

Til þess að taka þátt í keppnum á kjölbátum þarf að skrá sig í keppnishóp félagsins. Keppnishópurinn verður undir stjórn Ólafs Bjarnasonar og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við Ólaf á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Skráningargjald í keppnishópinn er 20.000 kr miðað við að tekið verði þátt í að minnsta kosti fjórum siglingakeppnum. Greiða skal inn á reikning félagsins: 536-26-6634, kt 470576-0695 og senda Ólafi kvittun.

Til þess að taka þátt í keppnum á kænum er best að byrja á að senda línu þar af lútandi á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. . Eftir að við höfum kynnst þér betur útvegum við bát (Laser, Topaz eða Optimist) sem hægt er að fara með á mót. Klúbburinn er ekki með skipulagðan keppnishóp í sumar, en félagsmenn taka þátt í æfingum á vegum Brokeyjar.

Hvenær er opið?

Starfsemi Ýmis fer algerlega eftir því hversu margir eru virkir í félaginu. Öll starfsemi er unnin í sjálfboðastarfi og því takmarkast opnunartímin af þeim tíma sem félagsmenn eiga aflögu eftir vinnu eða meðfram fjölskyldu.

Í sumar verður klúbburinn opinn þegar æfingar fara fram og á opnum kvöldum (fimmtudögum í sumar og laugardögum í haust). Aðrir opnir dagar verða auglýstir á facebook síðu félagsins.

Við viljum gjarnan hafa klúbbinn opin oftar, en þá þarf til virka aðila sem eru til í að vera til staðar til þess að sjá um öryggismál og umgengni.

AddThis Social Bookmark Button

Viðbótar upplýsingar