Viðkvæm svæði í nágrenni Fossvogshafnar

Hluti af Skerjafirði er friðlýstur, ásamt fjörum og grunnsævi. Friðlýst eru tvö svæði, annars vegar í Kópavogi (39 ha) og hins vegar í Fossvogi (23,6 ha), sem mikilvæg búsvæði fugla. Skerjafjarðarsvæðið í heild hefur alþjóðlegt verndargildi vegna farfuglategunda, svo sem rauðbrystings og margæsar en þar er að finna lífríkar þangfjörur, leirur og grunnsævi sem skapa undirstöðu fyrir fjölbreytt fuglalíf allan ársins hring. Einnig er svæðið mikilvægt vegna marhálms og sjávarfitjungs sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi, en marhálmur er ein aðal fæða margæsar.

Almenningi er heimil för um friðlýsta svæðið, en öllum er skylt að ganga vel um. Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf af ásetningi á verndarsvæðinu hvort heldur er í fjöru, í sjó eða á hafsbotni.

Á norðurströnd Kársness, vestan við Siglingastofnun, er tangi nefndur Höfði.  Tanginn er bæjarverndaður (hverfisverndaður). Í seinni heimsstyrjöldinni var herinn með loftvarnarbyssu á tanganum.

Vöktun á friðlýstu svæði í Skerjafirði

Umhverfisstofnun í samstarfi við Kópavogsbæ og Náttúrufræðistofu Kópavogs skal sjá um gerð verndar- og stjórnaráætlunar fyrir verndarsvæðið sbr. d-lið 6. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Náttúrustofa Kópavogs vaktar náttúru svæðisins og lífríki þess og gefur Umhverfisstofnun og Kópavogsbæ ábendingar um aðsteðjandi hættur og/eða um nauðsynlegar framkvæmdir í þágu verndar.

AddThis Social Bookmark Button

Viðbótar upplýsingar